4.10.16

DIY toy-kitchen | DIY dóta-eldhús

Í síðustu viku fékk ég þá flugu í hausinn að búa sjálf til dótaeldhús fyrir Emilíu. 
Og þegar ég fæ svona flugur í hausinn þá verður helst allt að gerast strax, svo að ég lét þessa hugmynd mína verða að veruleika um helgina. Þetta tók mig semsagt tvo daga en mesta vinnan var að mála "innréttinguna".


Fann þennan fullkomna skáp fyrir þetta verkefni (að mínu mati). Fullkomin hæð fyrir barn og hurðin opnast eins og ofn. Borgaði 5500 krónur fyrir hann í Góða Hirðinum.


Það var smá skemmd á honum eins og sést á myndinni og bakið var að detta úr honum en ég negldi það bara betur í.


Hægra megin eru svo tvær hillur sem sjást ekki á myndinni. Ákvað að það yrði "ísskápurinn" og vinstra meginn ofninn.


Bið tekkaðdáendur innilegrar afsökunar á að hafa málað hann hvítann. Fyrir einhverjum var ég örugglega að fremja stóra synd. Ég notaði kalkmálingu en svona eftirá hefði ég valið einhverja aðra málingu, þó að það hafi verið þægilegt að þurfa ekkert að pússa.


Framan á "ofninn" málaði ég svartann kassa með krítarmálingu. Ofninn er semsagt krítartafla líka.


Takkarnir og hellurnar eru búnar til úr þessari diskamottu frá IKEA. Vildi svo til að það var verið að gefa fjórar svona diskamottur niðrí kjallara þar sem ég bý (safnast saman gefins drasl þar í einu horninu) en ég þurfti bara að nota eina.
Höldurnar keypti ég líka í IKEA.Svona varð svo útkoman. Ekkert er fullkomið og sumt skakkt, en það er bara skemmtilegt.Litla kökukeflið fann ég í Góða Hirðinum og kostaði það 100 krónur. Fannst svo skemmtilegt að það var svona lítið og krúttlegt akkurat fyrir barnaeldhús og beið bara eftir mér.


Nýr eldhúseigandi testar gripinn.Ég er búin að fá þónokkrar gulróta og epla "kökur" síðustu tvo daga.


Litlu rósabollana og tvær litlar rósaskálar keypti ég einnig í Góða Hirðinum og kostuðu þeir 100 krónur stykkið. Glerflaskan er úr IKEA, ég setti krítarlímmiða og slaufu á hana. Hitt allt er svo úr DUKTIG línunni úr IKEA. 

Í heildina kostaði eldhúsið sjálft eða "innréttingin" 8580. En með öllu aukadótinu kostaði þetta 13530.

Er bara frekar ánægð með þetta og Emilía líka :)